154. löggjafarþing — 44. fundur,  6. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Við erum hér að ræða fjárlög 2024 og það verður bara að segjast eins og er að fjárlögin fyrir árið 2024 eru enn og aftur útþynnt og illa þefjandi naglasúpa fyrir þá verst settu en rjómalöguð, gróðavænleg og gullhúðuð gæðasúpa fyrir hina ríku. Það er alveg með ólíkindum að ár eftir ár, án þess að erfiða og án nokkurs samviskubits, er ríkisstjórnin að skilja þá verst settu eftir enn og aftur í fátækt, jafnvel sárafátækt. Kannski þarf maður ekki að vera hissa á því vegna þess að verkin tala og sýna skýrt fram á að þessi ríkisstjórn mun aldrei ætla sér á nokkurn hátt að sjá til þess að réttlæti komi handa þeim fátæku sem enn bíða eftir því að tími þeirra sé kominn, það kemur ekki nokkurn tímann í hennar stjórnartíð. Það sýna fjárlögin því miður svart á hvítu.

Það fjárhagslega ofbeldi sem fatlað fólk verður fyrir ítrekað í okkar samfélagi tekur alltaf á sig nýjar og nýjar myndir. Sumar eru alveg stórfurðulegar og aðrar matreiddar sem gæði en eru í raun í sauðargæru og það í stórundarlegu formi sem enginn botnar í og ekki einu sinni ríkisstjórnin sjálf. Því miður virðist ríkisstjórnin gersamlega vera úti á túni og ráðalaus. Fullyrðing hennar um að þeir sem reyna að tóra í almannatryggingakerfinu hafi aldrei haft það betra en í dag er stórfurðuleg. Ný skýrsla sem var birt hjá ÖBÍ dag sýnir að það er ekki á nokkurn hátt rétt og á allan hátt rangt og fjárlögin sanna það einnig með sínu áframhaldandi fjárhagslega ofbeldi gagnvart fötluðum og öldruðu fólki.

Ríkisstjórnin ber fulla og óskerta ábyrgð á þessu óréttlæti og þeim ómannúðlega bútasaumaða og keðjuverkandi óskapnaði sem almannatryggingakerfið er sem hún hefur illa nært og illa alið fyrir verst setta fólkið okkar en á sama tíma nært við brjóst sitt auðvaldið á kostnað veiks fólks.

Einkareknir fjölmiðlar í eigu auðmanna fá tvöfaldaða óþarfa framfærslu og einnig 10,6% hækkun á sama tíma og þeir verst settu í almannatryggingakerfinu fá bara 4,9% hækkun um áramót. Þarna munar nærri 6%. Hærri hækkun fyrir ríka á kostnað þeirra sem eru að reyna sitt besta að lifa af með börnin sín í sárafátækt. Á sama tíma og rýrnun kaupmáttar hjá fátækasta hópi samfélagsins heldur endalaust áfram er verið að eyða púðri í að afgreiða hinar ýmsu styrktarbeiðnir fyrir þá ríku og þá sem þurfa ekkert á þeim að halda, t.d. er 20 millj. kr. styrkur vegna Landsmóts hestamanna, 8 millj. kr. styrkur til Klúbbs matreiðslumeistara, 18 millj. kr. styrkur í Bíó Paradís, 17 millj. kr. styrkur í kvikmyndahátíð svo eitthvað sé nefnt og 80 milljónir í loftslagsmál en bara 8 milljónir til matargjafa. Já, bara 8 milljónir til skiptanna fyrir öll þau hjálparsamtök sem gefa mat fyrir jólin, mat handa þeim sem hafa ekki efni á að velja sér hann sjálf í verslunum eins og aðrir.

Hugsið ykkur, allt að 80% fatlaðs fólk lifa við félagslega einangrun með tilheyrandi andlegu og líkamlegu heilsutjóni í boði ríkisstjórnarinnar í dag og stór hópur þess hefur ekki efni á tannlækni, sjúkraþjálfun, lyfjum, læknisþjónustu, hvað þá heilsubætandi fæði eða hvað þá fæði yfir höfuð, hafa lifað við sárafátækt í áratugi í boði ríkisstjórnarinnar. Manni getur ekki annað en blöskrað, hikstað og jafnvel svelgst á vegna þeirrar ómögulegu meðferðar sem aldraðir og veikt fólk fær hjá þessari ríkisstjórn, fólk sem er að reyna að lifa af lífeyrislaunum. Við erum með 100–150 fatlaða einstaklinga fasta inni á hjúkrunarheimilum, margir þeirra án þeirra samþykkis og það kalla ég ekkert annað en hreppaflutninga af verstu gerð.

Það er talað um að persónuafslátturinn muni hækka um 5.000 kr., skattleysismörkin um 16.000 kr., skattar á 500.000 kr. laun muni lækka um 7.314 kr. En það er hvergi sagt í þessu blessaða riti hvað við með okkar laun eða ráðherrar eða þeir sem eru með hærri laun fáum í skattalækkun. Við fáum nefnilega helmingi meiri lækkun sem er auðvitað algjörlega fáránlegt.

Ef persónuafsláttur hefði fylgt vísitölu og verið uppfærður eftir lögum og reglum eins og á að gera frá því að staðgreiðsla skatta var tekin upp væri hann ekki 59.600 kr. í dag heldur væri hann yfir 90.000 kr. eða um helmingi hærri. Við í Flokki fólksins erum með frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Þá erum við líka búin að taka inn í kjaragliðnun og aðra þætti sem hafa í gegnum árin valdið því að þeir sem eru að reyna að tóra á lífeyrislaunum almannatrygginga ættu að vera með a.m.k. 150.000 kr. hærri útborgun eftir skatt heldur en þeir eru með í dag.

Þeir hæla sér af því að hækka persónuafslátt um 5.000 kr., hann fari í 64.600 kr. um áramótin, en það er bara langt frá því að vera nægileg hækkun vegna þess að á sama tíma er verið að tala um að almenn hækkun almannatrygginga eigi að verða 4,9%. Það er verðbólgan sem fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hefur áætlað á næsta ári gagnvart almannatryggingaþegum. Það er alveg ótrúlega fyndið þegar þeir fara að áætla vegna þess að þeir hafa aldrei haft rétt fyrir sér hver verðbólgan verður fram í tímann og virðist það vera allt að því vísvitandi og viljandi að þeir vilja ekki reikna þetta rétt. Ég hef margoft spurt að því hvernig í ósköpunum þeir hafi farið að því að finna það út að verðbætur og laun og launaþróun til einkarekinna fjölmiðla eigi að vera 10,6%, 10% hækkun til þeirra, en bara 4,9% hækkun til almannatryggingaþega. Hvernig er þetta reiknað út? Hver reiknaði þetta út og hvaða aðferð var notuð á þessa tvo gjörólíku þætti? Engin svör. Það segir sig sjálft að hærri talan er rétt og sú lægri er algjörlega röng. En eins og ég segi, þetta verður örugglega ekki rétt mælt hjá þeim núna frekar en fyrri daginn.

Áætluð útgjöld vegna verðbólgu í kerfi almannatrygginga eru 10,7 milljarðar. En hvað segir þetta okkur? Það segir okkur ekki neitt vegna þess að þegar þessir 10,7 milljarðar eru búnir að fara í gegnum skattkerfið og skerðingarkerfið, keðjuverkandi skerðingarkerfið og alveg yfir til sveitarfélaga, verður lítið sem ekkert eftir. Þá má ekki gleyma því að á þessu ári borga 49.000 manns á lífeyri frá TR til baka 8 milljarða vegna ofgreiðslu í lífeyrislaunum frá TR. Já, 8 milljarða. Það sýnir svart á hvítu hvað kerfið er útsmogið og fjárhagslega fjandsamlegt og gert til þess að stórauka fátækt og sárafátækt þeirra verst settu með fjárrennsli í gegnum vasa þeirra og beint í ríkissjóð aftur.

Frjálsir fjölmiðlar, einkareknir fjölmiðlar. Það er ekki hægt að kalla þá það. Einkareknir fjölmiðlar á ríkisstyrk. Þá á ekkert að skerða, nei, ekki neitt. Þeir fá 10,6% hækkun og einnig varanlega aukningu upp á 360 milljónir. Þeir eru sem sagt að hækka, það er verið að tvöfalda þar. Þarna er til nóg af peningum. Þarna er hægt að hafa 10,6% hækkun en lífeyrislaun eru bara hækkuð um 4,9% en ættu að hækka að lágmarki um 12,4% eða hærra, hærra en hjá þeim sem hafa það gott. En við sjáum það þarna svart á hvítu hverjir eru útvaldir og hverjir eiga að fá minnst og vera út undan.

Tekjusagan.is er ein af uppáhaldssíðum fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra. Þar er hægt að sjá hvað þeir sem reyna að tóra á lífeyrislaunum almannatrygginga hafa það gott. En hæstv. fjármálaráðherra gleymir alltaf viljandi og vísvitandi og segir ekki frá því í hvert skipti sem hann talar um Tekjusöguna að þar inni eru ekki skerðingar, upp á t.d. 8 milljarða. Skerðingarnar koma nefnilega löngu eftir á, hvað þá keðjuverkandi skerðingar sem geta teygt sig ansi langt.

Okkur ber skylda til að reyna að taka á húsnæðisvanda ungs fólks sem var hreinlega platað með því að segja að við værum lágvaxtalandið Ísland. Við erum búin að sjá ótrúleg dæmi um það hvernig hefur verið farið með unga fólkið þar sem afborganir á mánuði hafa meira en tvöfaldast. Það segir sig sjálft að ef einhver er að borga 200.000 kr. af láni og réði vel við það þá ræður hann ekki við 400.000 kr. af lágmarkslaunum. Auðvitað ætlar ríkisstjórnin ekkert að gera fyrir þetta unga fólk okkar. Þá getur það ekki verið eðlilegt á þessum tímum sem við erum bæði með verðbólgu og húsnæðisskort að maður sé að hitta og heyra í fólki sem er að fá 300.000 kr. útborgaðar fyrir skatt og er að reyna að lifa af þeirri upphæð, eða frekar að tóra á henni því að varla er hægt að lifa á henni, og viðkomandi þarf síðan að borga 260.000 kr. í leigu á mánuði. Það segir sig sjálft að það eru ekki nema 40.000 kr. eftir, kannski aðeins meira ef fólk fær einhverjar leigubætur. En hvað á maður að segja við þann einstakling sem sýnir manni að allt í einu sé búið að hækka leigu hans um 60.000 kr. á mánuði og er komin í 320.000 kr. en viðkomandi fær bara 300.000 kr. útborgaðar. Og hvað? Hann missir húsnæðið af því að hann hefur ekki efni á því.

Það er enn ekki búið að semja við sjúkraþjálfara eða í nær þrjú ár. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því að hver aukatími í sjúkraþjálfun kostar yfir 2.000 kr. í dag. Ef þú þarft á sjúkraþjálfun að halda tvisvar í viku þá erum við að tala um 4.500 kr. Það gerir um 18.000 kr. á mánuði sem stór hluti af því fólki sem þarf á þessu að halda á ekki til. Ég veit um fólk sem hefur ekki efni á því að fara í sjúkraþjálfun, fólk sem er að reyna að lifa á lífeyrislaunum sem eiga bara að hækka um 4,9%, sem ætti að vera 12,4%, og það á sama tíma og þeir sem vaða í peningum eiga að fá 10,6% hækkun. Hver er sparnaðurinn með þessu? Hann er enginn. Viðkomandi endar sennilega í dýrasta úrræðinu, inni á sjúkrahúsi, í rúmi sem kostar vel á annað hundrað þúsund á sólarhring. Nei, þeim er alveg sama þó að stór hópur af veiku fólki hafi ekki efni á sjúkraþjálfun og endi í dýrustu úrræðunum eða sé að bryðja verkjatöflur í tugavís heima hjá sér með tilheyrandi óþægindum. Á sama tíma kvartar ríkisstjórnin yfir því að sjúkrastofnanir ráði ekki við að útskrifa fólk. Hún eykur á vandann, kvartar síðan yfir eigin rugli. Það er alveg stórfurðulegt að það skuli vera svona ástand ár eftir ár í þeirra boði.

Ég vil koma því að að mér finnst að ríkisstjórnin verði að fara að hysja upp um sig og reyna virkilega að hugsa um þá sem þurfa mest á því að halda, þá sem eru að reyna að lifa á þessum lægstu bótum. Við gerum okkur auðvitað öll grein fyrir því að það lifir enginn á lægstu bótunum sem eru í boði þessarar ríkisstjórnar, það er algerlega útilokað. Hugsið ykkur líka það að hæla sér af því að þau væru búin að hækka frítekjumark öryrkja í 200.000 kr. á mánuði, en ætti að vera yfir 400.000 kr. ef rétt væri, þegar það ætti að gilda fyrir alla öryrkja en ekki bara suma. Varðandi þessa hækkun frítekjumarks atvinnutekna í 200.000 kr. gleymist alltaf að segja að þetta frítekjumark gildir ekki fyrir alla. Það gildir ekki fyrir þá sem eru með aldursuppbót og í fleiri bótaflokkum. Það er eiginlega bara fölsun hjá þeim til að plata veikt fólk til að vinna og hirða af þeim allt til baka. Það er verið að reyna að sannfæra fólk um að verið sé að gera eitthvað rosalega gott með þessu en þeir sem reyna þetta átta sig strax á því að það er alveg á hreinu að það hefur ekkert upp úr þeirri vinnu sem það er að reyna að vinna. Ekki neitt. Viðkomandi þarf að átta sig á því hvað það getur kostað hann mikið, þótt hann fái 200.00 kr. í vinnulaun aukalega sem hann þarf að leggja mikið á sig til að ná með sína líkamlegu stöðu og heilsu. Það er ekkert að skila honum þótt ríkisstjórnin segi: Þú hefur 200.000 kr. frítekjumark. Þau koma hérna hvað eftir annað upp í ræðustól og hæla sér af því. Það gildir ekkert. Það gildir sem kemur fram hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það gildir hvernig skerðingarnar taka á þessum hlutum. Fólk festist í skerðingafrumskógi almannatrygginga sem endar með því að það verður að greiða allt til baka í formi bakreiknings frá TR.

Er tekið á þessu í fjárlögum ríkisstjórnar? Nei, hún veit það nefnilega vel að ef hún lætur 1.000 kall í vasa fátæks fólks þá fær hún í flestum tilfellum 800–850 kr. af honum til baka, ef ekki allan og í sumum tilfellum meira. Já, ríkisstjórnin getur haldið áfram að hæla sér af þessu fullkomna svikafjárstreymi sínu þar sem þau láta þá verst settu fá 1.000 kallinn sem með sköttum og skerðingum og keðjuverkandi skerðingarkerfi rennur til baka í ríkiskrumlur Fjársýslunnar.

Ríkisstjórnin hefur séð til þess síðan ég kom á þing að stórauka kjaragliðnun almannatryggingakerfisins. Í öll þessi skipti hafa fatlaðir, aldraðir, öryrkjar og láglaunafólk gengið skert frá borði á kostnað þeirra ríku. Þeir einu sem eru ánægðir eru þeir sem hafa næg fjárráð, kvótagreifar og þeir sem eingöngu eru með fjármagnstekjur. Þetta eru þeir sem ríkisstjórnin styður og hjálpar. Hinir sem mest þurfa fá smámola ef einhverjir eru og fá ekki einu sinni verðbólguna bætta. Við vitum að verðbólgan er helmingi hærri heldur en þessi 4,9% sem eru í boði. Ef eitthvað er þá hefði ég sagt að ef ríkisstjórnin hefði virkilega viljað sýna að hún ætlaði sér að gera eitthvað þá hefði hún hækkað um 12,4% eins og Öryrkjabandalag Íslands vill og er aðeins meiri hækkun en svokallaðir einkareknir ófrjálsir fjölmiðlar á ríkisstyrk fá. Ef hún hefði gert það þá hefði hún á sama tíma átt að sjá til þess að hækka skerðingarmörk, draga úr öllum skerðingum, hækka frítekjumörk og sjá til þess á sama tíma að allt sem varðar öryrkja myndi fylgja, hækka allt aftur til upphafs ríkisstjórnarinnar frá 2017 og síðan sjá til þess að sú hækkun myndi skila sér beint og óskert í vasa þeirra. Ríkisstjórnin verður að hætta með 80–85% skatta og skerðingar og keðjuverkandi skerðingar á verst setta veika fólkið sem er auðvitað rosalega gróft fjárhagslegt ofbeldi gagnvart þeim hópi. En í þessum fjárlögum er því miður ríkisstjórnin enn og aftur að sýna sitt rétta skerðingarandlit og það ómálað og ófrítt með afbrigðum.

Biðlistar fatlaðra, bæði barna og fullorðinna, eftir þjónustu eru í flestum tilfellum mjög langir og lengjast bara. Starfsfólk sem vinnur við málaflokk fatlaðra er undantekningarlítið á allt of lágum launum og starfsmannaveltan er mikil. Eitt barn á bið eftir lífsnauðsynlegri þjónustu er einu barni of mikið. Það er staðreynd. En þeim er alveg sama. Þetta er alltaf sama vandamálið og það í bland við mikinn skort á fagmenntuðu starfsfólki sýnir hvar forgangsröðun stjórnvalda liggur þegar kemur að málaflokki fatlaðra og aldraðra. Einstaklingar hafa þurft að dvelja á geðdeildum svo árum skiptir vegna þess að ekki er hægt að veita þá þjónustu sem sómi er að og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og lög um málefni fatlaðra kveða á um. Þarna er um skort á þjónustu að ræða en ekki ofþjónustu sveitarfélaga.

Um málaflokk 27 í fjárlögunum, örorka og málefni fatlaðs fólks, bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og örorkulífeyri, segir í nefndaráliti meiri hlutans: „Gert er ráð fyrir að útgjöld til tekjutryggingar örorkulífeyris lækki um 1.400 millj. kr. vegna uppfærðrar áætlunar Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 2024.“ Það er kannski tilviljun en þetta er nákvæmlega sama upphæð, 1 milljarður og 400 milljónir, sem ríkisstjórnin sparaði sér á síðasta ári með því að sjá til þess að þeir sem þurftu á sjúkraþjálfun að halda höfðu ekki efni á því og þeir voru líka að spara 400 milljónir í talmeinaþjónustu. Það hlýtur að vera umhugsunarvert að þetta sé sparnaðarleið ríkisstjórnarinnar, að spara sjúkraþjálfun, spara í tekjutengingu örorkulífeyris.

Svo eru það málefni aldraðra. Það er eiginlega svolítið furðulegt ef maður fer að hugsa til þess að það kemur skýrt fram í fjárlögum núna í málefnum aldraðra að þar er gert ráð fyrir lækkun upp á 5,4 milljarða. Hvernig fengu þeir þessa tölu út? Jú, þeir reikna nefnilega með skerðingunum, skerðingardeginum mikla, að þeir nái af 50.000 manns í almannatryggingakerfinu 5,4 milljörðum. Þeir náðu 8 milljörðum á síðasta ári, endurgreiddu held ég 2 eða 3 þannig að í sjálfu sér er þetta líkleg tala en ég held að hún verði mun hærri vegna þess að lögmálið er þannig með lífeyrissjóðinn að ef einhverjar tekjur hækka þá ná þeir því til baka í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Þeir hafa alltaf sýnt það að þar liggur þeirra leið.

Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins eru það 2.800 einstaklingar sem eru þeir verst settu í ellilífeyriskerfinu. Í þessum hópi er 1.032 öryrkjar sem fá nú ellilífeyri í stað örorkulífeyris. Þessum hópi hefur verið neitað af stjórnarliðum um 66.381 kr. skatta- og skerðingarlausa eingreiðslu, jólabónus, í desember og það þó að það kosti ríkissjóð ekki nema 138 millj. kr. Og þeir eru tilbúnir að láta 700 millj. kr. í styrki til einkarekinna fjölmiðla. Styrki eru þeir líka að setja í útgerðir sem vaða í peningum en þeir geta ekki hugsað sér að setja þessar 138 millj. kr. til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Í þessum hópi, megum við ekki gleyma, er fólk sem er að fara úr örorkulífeyriskerfinu yfir í lífeyriskerfið og er að tapa, það er skert, það eru teknar af því 28.000 kr. á mánuði eftir skatt fyrir það eitt að verða 67 ára. Einstaklingar sem hafa verið í kerfinu frá fæðingu, í ömurlegu bútasaumuðu fátæktarkerfi, reynt að tóra í því, lifað af nærri 50 ár við þessar ömurlegu aðstæður — hvað er gert? Jú, þeim er refsað fyrir það. Refsað um 28.000 kr. á mánuði fyrir það að ná því að komast á ellilífeyri. Spennandi? Gaman að eldast, eiga góð elliár? Ekki fyrir þennan hóp.

Verst setta aldraða fólkið á ekki á nokkurn hátt upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn. Það hefur hún sýnt í Covid-faraldrinum og einnig núna þegar verðbólgan er um 10%. Hvers vegna skerðir þessi ríkisstjórn orlofs- og desemberuppbót aldraðs fólk þannig að sumir fá ekki krónu að sumri eða hvað þá um jól? Hvers vegna? Ekki skerða þeir okkar uppbót, ekki skerða þeir hana hjá vinnandi fólki? Hvers vegna skerða þeir hjá þessu fólki? Hvers vegna nota þeir eignaupptökuvarinn, lögþvingaðan lífeyrissparnað til að ráðast á þetta fólk? Ef enginn hefur séð hversu rangt þetta er þá er eitthvað undarlegt að, ég held að viðkomandi þurfi aðstoð. Ég skil ekki hvernig það er hægt að sjá það ekki að þetta er kolrangt, þarna er svoleiðis verið að ráðast á alveg fáránlegan hátt á fólk sem þarf virkilega á þessu að halda. Ef þetta fólk á rétt á þessum skerðingum, þetta er réttlætið gagnvart þeim, þá hlýtur að gilda það sama um alla aðra, okkur og alla aðra. Annað er bara hrein og klár og mismunun.

Skerðingarnar eru mestar vegna lífeyrissjóðsgreiðslna en oft er allt tekið af öldruðu fólki. Þetta eiga að vera 117.000 kr. eða heilar 77.000 kr. eftir skatt. Ekki króna fyrir suma en lítið fyrir aðra, desember- og orlofsuppbót skert þannig að sumir fá ekki krónu út úr því. Hugsið ykkur. Þetta er eins og ég sagði áðan, ef vinnandi fólk lenti í því sama, yfirvinnan dregin frá eða eitthvað, einhverjar aðrar tekjur notaðar til að sjá til þess að viðkomandi fái ekki þessar tekjur sem hann á rétt á. Sjáið þið hvað þetta er vitlaust? Maður getur alveg orðið gáttaður á þessu. Myndum við hér á Alþingi sætta okkur við að desemberuppbót okkar myndi skerðast vegna uppbóta á launum okkar? Það get ég ekki ímyndað mér. En fyrst það er verið að skerða hjá öðrum, fyrst þetta er gert hjá verst setta fólkinu, þá myndi mér þykja mjög eðlilegt að það væri líka gert við okkur og aðra.

Hvernig getið þið sem eruð í ríkisstjórn komið svona fram við aldrað fólk sem hefur byggt upp okkar land? Að ráðast fjárhagslega á þá sem geta ekki varið sig er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð. Stjórnarliðar, þið verðið að fara að hysja upp um ykkur skerðingarbuxurnar, sýna manndóm og hætta að níðast fjárhagslega með skerðingum á orlofs- og desemberuppbót hjá öldruðu fólki og öryrkjum og skerðingum á lífeyrislaun þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins. Það sem þið eruð að hækka og það sem þið eruð að láta í styrki til annarra, hvort sem það eru hækkanir beint í prósentum eða krónutölu — þið verðið að hætta að nota keðjuverkandi skerðingar til að ná öllu af þeim til baka aftur.

Það er alveg óverjandi að öryrkjar séu með fjárhagslegan hnút í maganum þegar þeir hætta að vera öryrkjar, eins og ég sagði áðan, og fara yfir í ellilífeyriskerfið og missa 336.000 kr. á ári eða 28.000 kr. á mánuði, fólk sem var búið að vera fatlað alla sína ævi. Hvað hefur það brotið af sér? Þegar það er loksins orðið gamalt, af hverju þarf þá að refsa því bara fyrir að verða gamalt, að ná því að lifa til 67 ára aldurs. Spáið í þetta. Hvað skeði? Hvað er að?

Okkur hér á Alþingi ber að tryggja fjárhagslega stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, hvort sem það er í vinnu, hlutavinnu eða ekki í vinnu, og tryggja þeim full og óskert mannréttindi og jafnrétti. Okkur ber skylda til þess að gera það. Af hverju gerum við það ekki? Þá ber okkur að tryggja að fatlað fólk búi við mannsæmandi aðstæður, fæði, klæði og húsnæði, og það einnig í félagsmálum og tómstundum. Gerum við það? Nei, það gerum við ekki. Það fer ekki á milli mála.

Við í Flokki fólksins erum með 63 frumvörp hér á þingi, mörg frumvörp til að bæta stöðu aldraðra og fatlaðs fólks í almannatryggingakerfinu. En þau komast einu sinni til umræðu hér og hverfa síðan undir stól í nefndarstörfum. En við erum þó með breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Við viljum t.d. hækka bankaskattinn og taka þar inn 31 milljarð. Spáið í hvað við gætum gert við það. Ef við tökum bara þann skatt og hækkum veiðigjaldið um 15 milljarða þá erum við komin með 46 milljarða, bara með þessu. Það myndi duga að stórum hluta til þess að hafa 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir alla, sem væri auðvitað rétta talan í dag ef við hefðum uppreiknað samkvæmt launavísitölu bæði almannatryggingar frá 1980 þegar við tókum upp staðgreiðsluna og persónuafsláttinn.

Þetta er auðvitað alkunnug aðferð hjá ríkisstjórninni og hún er ekki bara búin að smitast í almannatryggingakerfið heldur er hún komin yfir í vinnukerfið og meira að segja, eins og ég heyrði í dag, hjá bændunum, aðferð sem er alveg ótrúlega lúmsk. Það er að setja inn einhverja tölu eins og töluna 109.000 kr. frítekjumark atvinnutekna. Þeir hækkuðu hana upp í 200.000 kr., rosalega stoltir og komu hérna hver á fætur öðrum alveg yfir sig ánægðir með þetta en sögðu auðvitað aldrei frá því hverjir gætu fengið þetta, að þetta væri ekki nema bara fyrir suma, bara útvalda, einhverja sem tikkuðu í öll boxin. Aðrir sem væru með fleiri bótaflokka fengju ekki neitt út úr þessu. Þeir sögðu ekkert frá því, það var bara algjört aukaatriði. En ef þessi 200.000 kall hefði verið uppreiknaður, hann hafði ekki verið uppreiknaður í meira og minna tólf ár, þá væri hann vel á 1.500.000 kr., en hann myndi samt, að óbreyttu, ekki gilda fyrir alla, bara suma. Hugsið ykkur. Þeir eru að mismuna innan þessa hóps, þeir eru ekki bara að mismuna örorku- og ellilífeyrisþegum gagnvart öðrum heldur eru þeir að mismuna innan hópsins. Ég veit ekki hvort það er tilraun til að koma á úlfúð innan hópsins eða í hvaða tilgangi það er. Ég veit það ekki, ég næ því ekki. En einhvern veginn tekst þeim að láta þetta vera svona. Einhvern veginn tekst þeim að viðhalda þessu. Einhvern veginn tekst þeim að verja þetta og greiða atkvæði með þessu og vilja hafa þetta svona. Þetta er rannsóknarefni út af fyrir sig, myndi ég segja. Við erum búin að vera með fjórflokkinn, þessa fjóra flokka við völd saman og til skiptis í áratugi, þeir hafa búið til þetta bútasaumaða kerfi, viðhaldið því og gert alltaf verra og verra. En það segir sig sjálft að ef þeir vita það fyrir fram að ef þeir setja 100.000 kr. inn í kerfið þá fái þeir alveg að lágmarki 85.000–90.000 kr. til baka beint í vasann aftur, og jafnvel hitt, þegar búið er að fara í gegnum allan þennan óskapnað og jafnvel yfir í að skerða húsaleigubætur og sérstakar húsaleigubætur í félagslega kerfinu, þá er það tilgangurinn, tilgangurinn sem helgar meðalið. Þeir eru búnir að átta sig á því að þetta er hópurinn, þetta eru breiðu bökin. Þetta er hópurinn sem er hægt að fara svona með. Sorglegt en staðreynd.

Við í Flokki fólksins erum líka með breytingartillögu um SÁÁ og Krýsuvík. Það er nú eitt sorgartilfellið að við skulum vera með fárveikt fólk sem gleymist bara vegna þess að það veikist ekki rétt, er ekki með réttan sjúkdóm. Hvað segir það okkur? Að við skulum vera með það kerfi að við mismunum meira að segja eftir sjúkdómum. Það er í lagi ef þú fótbrotnar, þá verða þeir að tjasla fætinum saman í flestum tilfellum þó að þú getir lent í því að þurfa að bíða kannski í tvo, þrjá daga, ef þú færð tannpínu getur þú lent í stökustu vandræðum því að fólk hefur ekki efni á því. En ef þú ert með áfengisfíkn eða fíkn í fíkniefni þá er það einhver sjúkdómur sem þarf ekkert að taka alvarlega. Auðvitað eru þetta allt sjúkdómar sem eiga að vera innan heilbrigðiskerfisins og auðvitað á heilbrigðiskerfið að virka þannig að ef þú þarft á þjónustunni að halda þá færðu hana og þú þarft ekki að borga fyrir hana. Við erum það ríkt samfélag, við höfum það mikla fjármuni að við eigum alveg að geta staðið undir því ef viljinn væri fyrir hendi. En því miður, eins og ég segi, það er eitt af því sem virkilega skortir hjá þessari ríkisstjórn, það er viljinn, viljinn gagnvart þeim sem mest þurfa á því að halda. Það er alveg nóg til af peningum til að gera það en þeir fara í annað eins og ég hef bent á.

Krýsuvíkursamtökin biðja um 50 milljónir en við erum með breytingartillögu um að þau fái 570 milljónir til að styrkja reksturinn og líka til þess að stækka meðferðarheimilið.

Við erum með breytingu við örorku- og ellilífeyri, almannatryggingar, þar förum við eftir því sem Öryrkjabandalagið vill, breytingartillögu um að hækka um 12,4% vegna þess að við vitum að það stendur í lögum um almannatryggingar að það ber að fara eftir launaþróun en vísitölu ef hún er hagkvæmari. Það á alltaf að taka það sem er hagkvæmast fyrir þá sem eru í þessu kerfi en það er aldrei farið eftir því. Ég man a.m.k. ekki eftir því.

Við viljum líka hækka vaxtabætur. Það er alveg með ólíkindum að þessi ríkisstjórn ætlar ekki að byggja neinn varnargarð utan um unga fólkið sem bæði ríkisstjórnin og Seðlabankinn plötuðu til þess að fara og kaupa sér íbúð. Þetta unga fólk keypti sér íbúð og sum rétt náðu upp í greiðslumatið en sáu fram á það, miðað við vaxtastigið sem var þegar þau keyptu þá gætu þau staðið undir viðkomandi láni en það skyldi nokkrum árum seinna tvöfaldast eða meira er alveg ótrúlegt ofbeldi. Þegar verðbólgan var ekki nema 2,7% og var að fara af stað þá margítrekuðum við, bæði ég og Inga Sæland hérna í ræðustól Alþingis við ráðherra, að nú þyrfti að gera eitthvað. Það þyrfti að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, festa vexti í 3%, gera eitthvað. Var hlustað? Nei. Þau sögðust hafa alveg þvílík ráð í hendi sér til að takast á við verðbólguna, ekki bara eitt, ekki bara stýrivexti, ekki bara að hækka þá þrettán, fjórtán sinnum, þau hefðu fullt af öðrum ráðum. En hefur einhver séð önnur ráð? Ég hef ekki séð nein önnur ráð. Eina ráðið sem gripið hefur verið til er að hækka stýrivexti sem varð þess valdandi að við höfum séð 500.000 kr. afborgun; 10.000 kr. afborgun af láninu og 490.000 í vexti.

Ég veit ekki hvort ég hef sagt það áður en ég ræddi þetta við erlendan aðila á Norðurlandaráðsþingi, var að reyna að útskýra fyrir honum hvernig þetta væri hérna með húsnæðisliðinn og þessi lán. Ég hef aldrei séð annan eins undrunarsvip á neinum manni. Hann trúði mér ekki. Það gæti ekki átt sér stað. Hann sagði að ef þetta hefði verið gert í hans landi þá hefði kerfið lamast alveg um leið, það hefðu allir labbað út og ekki hreyft sig fyrr en það væri búið að koma þessu í lag. Þetta unga fólk er að taka lán til 40 ára. Það að lánið geti umbreyst í eitthvert skrímsli á einni nóttu á ekki að geta átt sér stað. Ef þú tekur lán til 40 ára þá eiga að vera bara fastir vextir, óverðtryggt, og það á að vera sama greiðslubyrði á því frá upphafi til enda. Svoleiðis er þetta í nágrannalöndunum. Við getum alveg haft þetta svona hér ef vilji er fyrir hendi.

Við erum með lífeyrissjóðskerfi þar sem er verið að ávaxta fé til áratuga, sjóðirnir gera kröfu um ávöxtun upp á 3–3,5%, það eru sveiflur en þeir ná því nokkurn veginn. Við höfum lagt til í þingflokki Flokks fólksins að skattleggja við innborgun í lífeyrissjóði. Af hverju? Jú, vegna þess að við teljum að þessum peningum sé betur varið með því að nýta þá fyrir fólkið í dag, koma hlutunum í lag, heilbrigðiskerfinu, almannatryggingakerfinu og sjá til þess að þeir nýtist þessu fólki sérstaklega. Við verðum líka að átta okkur á því að nýjustu tölur sýna fram á að lífeyrissjóðirnir hafa tapað 800 milljörðum. Ef við horfum á þessar 800 milljarða og tökum 40% skatt þá erum við að tala um 320 milljarða. Þessir 800 milljarðar voru settir í samhengi við 16.000 íbúðir. 320 milljarða skatttekjur. Ég held að þær gætu farið langt í að borga upp skuldir ríkissjóðs. Þetta er auðvitað alveg með ólíkindum vegna þess að inni í þessu kerfi, 7.000 milljarða kerfi lífeyrissjóðanna, er þar af leiðandi 2.800 milljarða skattgreiðslur sem þeir fá að gambla með á markaði. Ég held að það sé eini aðilinn hér á landi sem fær að fara með skattpeninga landsmanna á markað og gambla með þá. Þeir gætu alveg eins farið með þá í sjálfu sér í spilavíti. Það hefur sýnt sig í hruninu þar sem töpuðust milljarðar og það er líka að sýna sig í dag þegar þeir eru að tapa þessum óhugnanlegu upphæðum. Þar af leiðandi viljum við tvöfalda vaxtabætur. Við viljum reyna að sjá til þess að þeir sem eru að missa íbúðir sínar fái þessar vaxtabætur, tvöfaldar a.m.k. Það er nær samt ekki upp í það sem áður var.

Við erum líka gjörsamlega á móti því að þessi ríkisstjórn hafi heimild lengur til að selja banka. Þeir hafa sýnt fram á að þeir eiga ekki nokkurn rétt á því að gera það því að þeir klúðruðu því algerlega.

Ég vona heitt og innilega að okkar tillögur verði samþykktar þó að ég telji það mjög ólíklegt.